Persónuverndarfulltrúi

Hvað er persónuverndarfulltrúi?

Persónuverndarfulltrúi á að vera til staðar hjá öllum opinberum stofnunum, ráðuneytum, sveitarfélögum og ákveðnum tegundum af fyrirtækjum.

Persónuverndarfulltrúi hefur það hlutverk að fylgjast með því að viðkomandi aðili fari að persónuverndarlögum. Ef þú hefur spurningar í tengslum við meðferð opinbers aðila eða fyrirtækis á persónuupplýsingum þínum átt þú að geta haft samband við persónuverndarfulltrúann.

Er mér skylt að hafa persónuverndarfulltrúa?

Opinberum stofnunum, ráðuneytum, sveitarfélögum og ákveðnum fyrirtækjum er skylt samkvæmt persónuverndarlögum að tilnefna persónuverndarfulltrúa. 

Fyrirtæki þurfa að hafa persónuverndarfulltrúa ef starfsemi þeirra felur í sér umfangsmikið eftirlit með einstaklingum eða ef þau vinna með mikið magn af viðkvæmum persónuupplýsingum.

Ætti ég að hafa persónuverndarfulltrúa þótt mér beri ekki skylda til þess?

Öllum fyrirtækjum ber að fylgja persónuverndarlögum án tillits til eðli starfseminnar. Öllum er frjálst að hafa persónuverndarfulltrúa. Slík ráðstöfun kann auk þess að vera til þess fallin að lágmarka áhættu og skapa traust og trúverðugleika út á við.

Hver má vera persónuverndarfulltrúi?

Persónuverndarfulltrúi þarf að hafa góða þekkingu á persónuverndarlögum og lagaframkvæmd á því sviði. Auk þess þarf persónuverndarfulltrúi að vera hæfur til að sinna þeim verkefnum sem persónuverndarlögin fela honum.

Persónuverndarfulltrúi má einnig ekki hafa hagsmuna að gæta, enda gætu persónuverndarsjónarmið þá verið virt að vettugi. Þannig er til dæmis ekki skynsamlegt að tilnefna framkvæmdastjóra, fjármálastjóra, mannauðsstjóra, rekstrarstjóra eða annan stjórnanda sem persónuverndarfulltrúa.  Þessi upptalning er ekki tæmandi talin. 

Dæmi um hagsmunaárekstur sem getur komið upp:

„Fyrirtæki vill taka tiltekið í kerfi í notkun. Í kerfinu er hægt að safna og vinna með ítarlegar upplýsingar um einstaklinga. Fyrirtækið sér mikil tækifæri í aukningu á sölu með tilkomu kerfisins en það kann þó að vera varhugavert m.t.t. persónuverndar.“

Í dæminu hér er líklegra að framkvæmdastjóri hugsi um hagsmuni fyrirtækisins fremur en að tryggja persónuvernd einstaklinga.

Frekari upplýsingar

Er svarið við þinni spurningu ekki að finna hér? Ekki hika við að senda okkur fyrirspurn í gegnum netfangið sekretum@sekretum.is og við svörum þér eins fljótt og auðið er. Sérfræðingar okkar hafa um árabil sinnt hlutverki persónuverndarfulltrúa og veita alla ráðgjöf í tengslum við hlutverkið.