Ó­vinurinn Per­sónu­vernd

Í dag er alþjóðlegur persónuverndardagur. Í persónuvernd felst að farið sé með upplýsingar einstaklinga í samræmi við rétt þeirra til friðhelgi einkalífs. Frá því heimsfaraldur skall á fyrir um tveimur árum hefur þrengt verulega að þeim rétti. Þannig hefur til dæmis þótt eðlilegt að yfirvöld sæki upplýsingar frá kortafyrirtækjum til að finna út staðsetningu einstaklinga, veitingastaðir skrái komu gesta, sýna bólusetningarvottorð þegar þú ferð erlendis, sýna vottorð um að þú megir sækja viðburð, sækja ekki skóla nema niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir, upplýsa um hverjum þú varst með ef þú smitast og tilkynna náungann ef þig grunar að hann sé að fremja sóttvarnabrot.

Á Íslandi starfar stofnunin Persónuvernd sem hefur eftirlit með að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarréttindi og innan þess ramma sem lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga kveða á um. Í heimsfaraldrinum hafa áhrifamenn í samfélaginu beint spjótum sínum að stofnuninni og hún meðal annars verið sökuð um að standa í vegi fyrir mikilvægum aðgerðum í þágu samfélagsins. Fólk hefur einnig lagt sitt af mörkum í athugasemdakerfum við að úthúða stofnuninni, enda eflaust tilfinning þeirra að þarna sé óvinur á ferð í baráttunni við veiruna.

Árásir á Persónuvernd undanfarið koma alls ekki á óvart, enda tilhneiging margra til að ganga á mannréttindi og víkja hindrunum úr vegi þegar samfélagið stendur frammi fyrir erfiðleikum. Mikilvægt er þó að láta ekki blekkjast af áróðri og huga að þeim afleiðingum sem óheft söfnun upplýsinga um einstaklinga getur haft í för með sér. Á tímum þar sem nær útilokað er að komast í gegnum daginn án eftirtektar er staðreynd að Persónuvernd hefur aldrei gegnt mikilvægara hlutverki.

Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.

Friðhelgi bólusettra

Í vikunni bárust fréttir af þeirri ráðstöfun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur að kalla eftir bólusetningarvottorði frá þeim sem ætla að koma inn í úthlutunarstöð nefndarinnar. Að sögn formanns hennar er það gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sjálfboðaliðar smitist af hinni umtöluðu veiru. Af augljósum ástæðum eru það einungis bólusettir sem framvísa upplýsingum um bólusetningu. Um skoðun nefndarinnar á þeim upplýsingum gilda ótvírætt lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“). Í þessari stuttu grein rekur höfundur ástæður þess að ráðstöfun nefndarinnar samræmist ekki persónuverndarlögum.

Heimild í persónuverndarlögum þarf að vera til staðar

Til þess að skoðun á vottorðum einstaklinga geti farið fram þarf heimild í persónuverndarlögum að vera til staðar. Slík heimild getur til dæmis verið samþykki einstaklinga eða að hagsmunir annarra vegi það þungt að rétt þykir að ganga á friðhelgi annarra einstaklinga.

Eflaust munu flestir sem leggja leið sína í úthlutunarstöð nefndarinnar sýna bólusetningarvottorðið án vandkvæða, þ.e. samþykkja að sýna það. Samþykkið myndi þó ekki standast kröfur persónuverndarlaga, enda er bólusetningarvottorðið skilyrði fyrir komu á úthlutunarstöðina og er þá um þvingað samþykki að ræða.

Til skoðunar kæmu þá hagsmunir annarra, en líkt og áður er rakið hefur formaður nefndarinnar vísað til þeirrar hættu að sjálfboðaliðar smitist við störf sín. Ekki verður um það deilt að markmiðið er málefnalegt og lögmætt. Á móti kemur að ráðstöfunin, þ.e. að skoða vottorð bólusettra, þarf að vera nauðsynleg til þess að ná því markmiði, þ.e. að tryggja heilsu sjálfboðaliða.

Hættan af bólusettum einstaklingum er líka til staðar

Sóttvarnalæknir minntist á þá staðreynd á dögunum að bylgjan sem nú geisar er ekki drifin áfram af óbólusettum einstaklingum. Taldi hann forsendur til að mismuna einstaklingum ekki vera til staðar, enda smita bólusettir út frá sér líkt og þeir sem eru óbólusettir. Af því leiðir að hættunni fyrir sjálfboðaliða Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur verður ekki afstýrt þótt þangað komi einungis bólusettir einstaklingar. Skoðun nefndarinnar á bólusetningarvottorðum er því ekki nauðsynleg ráðstöfun og telst með sömu rökum ólögmæt.

Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.

Gesta­bækur veitinga­staða

Á veitingastöðum í dag hvílir skylda samkvæmt lögum að skrá gesti í númeruð sæti undir nafni, kennitölu og símanúmeri. Kveðið er á um þá skyldu í reglugerð nr. 404/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Markmið hennar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

Persónuvernd sendi á dögunum frá sér leiðbeiningar um hvernig haga skuli skráningunni í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“). Undirritaður hefur sótt nokkra veitingastaði undanfarið en ekki orðið þess var að framkvæmdin á skráningu hafi verið í samræmi við umræddar leiðbeiningar. Einkum hefur skort á viðeigandi fræðslu og þá eru dæmi um að skráningarblöð hafi legið í anddyri veitingastaða líkt og gestabækur í fermingarveislum. Þetta tvennt er í andstöðu við persónuverndarlög.

Undirritaður ætlar þó ekki að gagnrýna veitingastaði sérstaklega, enda telur hann ekki óeðlilegt að rekstraraðilar veitingastaða séu, upp að vissu marki, ómeðvitaðir um þær kröfur sem persónuverndarlög gera til þeirra. Markmiðið er einkum að velta því upp hvort gengið sé á stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga af hálfu stjórnvalda með ólögmætum hætti.

Persónuupplýsingar okkar njóta stjórnarskrárvarinnar verndar

Þær upplýsingar sem skráðar eru við komu okkar á veitingastaði teljast til persónuupplýsinga í skilningi persónuverndarlaga. Persónuupplýsingar eru hluti af okkar einkalífi og njóta ótvírætt stjórnarskrárvarinnar verndar. Þennan rétt okkar má einungis skerða með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Ekki verður um það deilt að stjórnvöld hafa samkvæmt sóttvarnalögum nr. 19/1997 ákveðnar heimildir til að skerða þennan rétt okkar. Að sama skapi verður ekki um það deilt að í því ástandi sem ríkt hefur undanfarið sé réttlætanlegt og nauðsynlegt að skerða einkalíf einstaklinga með ákveðnum aðgerðum vegna réttinda annarra.

Geta stjórnvöld þá krafið veitingastaði um að skrá komu gesta?

Markmið reglugerðar nr. 404/2021 um að hægja eins og unnt er á COVID-19 sjúkdómnum verður að teljast málefnalegt, enda verður sú ógn sem stafað hefur af sjúkdómnum ekki dregin í efa. Sú ákvörðun að skylda veitingastaði til að skrá komu gesta verður þó að teljast nauðsynleg til að ná umræddu markmiði. Með hliðsjón af því hlýtur það til dæmis að hafa verið mat stjórnvalda að mikil hætta sé á sýkingu á veitingastöðum, rakning sé það erfið að veitingastaðir verði að skrá komu gesta, ekki sé hægt að kalla eftir upplýsingum frá kortafyrirtækjum líkt og áður hefur tíðkast og appið muni ekki duga til að kortleggja ferðir einstaklinga. Eða hvað?

Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.

Ó­lög­legt eftir­lit á Akra­nesi

Á Akranesi fer fram eftirlit með hraðakstri ökumanna. Slíkt eftirlit er auðvitað gott og blessað, enda mikilvægt að ökumenn keyri innan hraðamarka til að tryggja öryggi sitt og annarra vegfarenda. Eftirlitið á Akranesi fer þó fram með fremur athyglisverðum hætti. Hvítri bifreið af gerðinni Volkswagen Caddy er lagt hér og þar um bæinn, oftast ólöglega. Í bifreiðinni er myndavél sem tekur myndir af þeim sem aka of hratt. Hún ber ekki með sér að vera lögreglubifreið, enda ekki merkt sem slík. Ég gef mér þó að þarna sé lögregla á ferð, eða a.m.k. aðili sem þjónustar lögregluna á einhvern hátt. Undirritaður þekkir þó nokkra sem lent hafa í klóm bifreiðarinnar, sumir þeirra oftar einu sinni.

Má eftirlitið fara fram með leynd?

Um eftirlitið og þær myndir sem teknar eru í hvítu bifreiðinni gilda lög nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Í lögunum er tiltekið að vinnsla á persónuupplýsingum, þ.e. myndataka í þessu tilfelli, eigi að fara fram með sanngjörnum hætti. Í því felst að gagnsæi verður að vera til staðar gagnvart einstaklingum, þ.e. að þeir séu meðvitaðir um eftirlitið.

Á kröfunni um gagnsæi eru þó að sjálfsögðu ákveðnar undantekningar. Henni er ekki ætlað að koma í veg fyrir að löggæsluyfirvöld sinni starfsemi sem miðar að því að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um, saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum. Slík starfsemi verður þó að teljast nauðsynleg og hófleg ráðstöfun. Í einföldu máli má segja að vöktun með leynd sé heimil í ákveðnum tilvikum þar sem vægari úrræði duga ekki til.

Gefum okkur til dæmis að rökstuddur grunur sé uppi um að tilteknir einstaklingar standi að stórfelldum fíkniefnainnflutningi. Lögregla grípur til þess ráðs að hlera símtöl þeirra. Hér gefur augaleið að óheppilegt væri að upplýsa hina meintu fíkniefnasala um eftirlitið, enda myndu þeir eflaust grípa á það ráð að eiga tiltekin samskipti með öðrum hætti en í gegnum síma. Þar með gætu þeir haldið áfram að komast upp með hið meinta ólögmæta athæfi. Í þessu tilfelli má segja að vöktun með leynd sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir refsivert brot og ekki þarf því að upplýsa um hana.

Hið sama verður ekki sagt um eftirlit með hraðakstri ökumanna. Ólíkt hinum meintu fíkniefnasölum, þá er yfirleitt ekki um einbeittan brotavilja að ræða hjá ökumönnum og ólíklegt að þeir grípi til ráðstafana til að komast upp með þá háttsemi að keyra of hratt, svo sem fari aðra leið til að svala þörf sinni fyrir hraðakstur. Með vitneskju um staðsetningu lögreglunnar grípa flestir ökumenn á það sjálfsagða ráð að virða hraðamörk. Eftirlit með leynd er því á engan hátt nauðsynlegt til að koma í veg fyrir brot þeirra.

Undirritaður vill taka fram að hann er á engan hátt talsmaður hraðaksturs og öll erum við eflaust sammála um að hann er hættulegur. Með sýnileika lögreglu er komið í veg fyrir hraðakstur og hættunni sem af honum hlýst er afstýrt. Þegar lögregla liggur í leyni er hinu hættulega ástandi aftur á móti viðhaldið og aðferðin því ekki til þess fallin að tryggja öryggi ökumanna og annarra vegfarenda.

Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.

Eignin sem við fáum ekki greitt fyrir

Í dag er alþjóðlegur persónuverndardagur. Persónuvernd hefur mikið verið í umræðunni undanfarin ár og mun án nokkurs vafa verða það áfram um ókomna framtíð. Umræðuefnið kann þó að vera orðið þreytandi fyrir marga. Langar persónuverndarstefnur og skilmálar áreita okkur á hinum ýmsu vefsíðum. Gjarnan, og kannski eðlilega, nennum við ekki að lesa í gegnum hinn langa og óskiljanlega texta og samþykkjum hann þegjandi og hljóðlaust.

En það er mikilvægt að átta sig á hvað þarna liggur undir. Upplýsingasöfnun um einstaklinga hefur stóraukist á undanförnum árum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Við erum farin að nota öpp í tengslum við flestar athafnir daglegs lífs, svo sem til að skrá niður hvað við borðum, hvernig við hreyfum okkur, til að greiða fyrir vöru og þjónustu og svo mætti lengi áfram telja. Í sumum tilfellum erum við hvött til að taka okkur frí frá snjallsímanum og gera eitthvað annað, til dæmis hugleiða. En síminn er þá auðvitað líka með lausn fyrir það, þú getur að sjálfsögðu náð þér í hugleiðsluapp.

Málið er ekki bara að við erum að láta af hendi allar þessar upplýsingar um okkur sem liggja svo einhvers staðar ósnertar. Þessar upplýsingar gefa miklar vísbendingar um hver við erum í raun og veru. Mörg fyrirtæki hafa lært að nýta það sem verðmæti og oftar en ekki hafa þau gert það á bak við tjöldin. Löggjafinn hefur viljað bregðast við þessu og nú er skýr krafa um að fyrirtæki upplýsi okkur um hvað þau gera með okkar persónuupplýsingar. Af þeim sökum kunna óþolandi persónuverndarstefnur að birtast okkur í tíma og ótíma.

Sum fyrirtæki hafa selt okkur þá hugmynd að þjónustan þeirra sé ókeypis. Hið rétta er þó að við höfum greitt þeim fyrir þjónustuna með okkar upplýsingum og einkalífi. Því meira sem við látum af því af hendi, þeim mun betur kynnast þau okkur. Eftir því sem þau kynnast okkur betur, þeim mun auðveldara er fyrir þau að birta okkur viðeigandi efni. Slíkt laðar að sjálfsögðu auglýsendur að sem eru tilbúnir að greiða fyrir sitt pláss.

Okkar upplýsingar tilheyra okkur og eru okkar eign. Sannleikurinn er sá að mörg fyrirtæki hafa fengið okkar upplýsingar frítt og hagnast gífurlega. Með réttu ættum við að spyrja okkur hvort ekki væri rétt af þeim að greiða okkur fyrir að nota þjónustuna þeirra og veita aðgang að okkar persónuupplýsingum.

Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.

Mun frið­helgi einka­lífs kosta meira í fram­tíðinni?

Síðasta föstudag birtist frétt á Vísi um nýjung sem tryggingafélagið VÍS hyggst setja á markað um næstu áramót. Nýjungin er kubbur sem settur er í bíla og er þeim eiginleikum búinn að geta fylgst með akstri bílstjóra, meðal annars hvort þeir keyri of hratt eða séu í símanum undir stýri. Þær upplýsingar sem verða til mun VÍS svo nota til að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör, þ.e. þeir sem hafa hagað sér vel í umferðinni munu greiða lægra gjald fyrir tryggingarnar. Að sögn forstjóra VÍS er um að ræða „upphæðir sem skipta máli.“

Betri og hagkvæmari þjónusta á kostnað friðhelgi einkalífs

Góð og hagkvæm þjónusta fyrirtækja grundvallast á persónulegri þjónustu. Til þess að persónuleg þjónusta verði sem best þurfa fyrirtæki að þekkja viðskiptavininn vel, og helst betur en keppinautar þess. Þekking á viðskiptavinum byggir í raun á þeim gögnum sem þeir láta af hendi. Þeim ítarlegri sem gögnin eru, þeim mun auðveldara er að skilja þarfir þeirra og þar með selja þeim betri þjónustu.

Í þeirri nýjung sem VÍS hyggst bjóða upp á felst að þeir sem keyra vel og ákveða að deila upplýsingum með fyrirtækinu munu greiða minna en þeir sem kjósa að gera það ekki. Óhjákvæmilega verða því viðskiptavinir fyrirtækisins að gefa eftir hluta af friðhelgi sinni til þess að fá betri og persónulegri þjónustu.

Í þessu samhengi má einnig velta því fyrir sér hversu langt sum tryggingafélög ætli inn á friðhelgi einkalífs fólks í framtíðinni. Eftirlit þeirra með akstri viðskiptavina er fjarri því að vera það eina sem þau hafa í hyggju að fylgjast með. Úti í heimi fylgjast sum þeirra með matarkörfu viðskiptavina sinna, en þar er tilgangurinn að bjóða þeim sem kjósa „hollari lífstíl“ betra verð á tryggingum.

Kostar það okkur eitthvað annað að vera undir eftirliti?

Það er manninum eðlislægt að vera ekki undir eftirliti og þegar enginn er að fylgjast með getum við verið við sjálf. Eftirlit hefur um aldir verið notað til að hafa stjórn á fólki, meðal annars föngum í fangelsi. Þess má geta að ekki skiptir máli hvort eftirlitið sé raunverulega til staðar, heldur eingöngu sú tilhugsun um að einhver gæti verið að fylgjast með.

Eftirlit tryggingafélaga með akstri ökumanna mun án nokkurs vafa hafa áhrif á hegðun þeirra í umferðinni. Ekki verður um það deilt að í sumum tilfellum kann það að vera til góðs, svo sem með fækkun umferðarslysa. Ekki verður þó heldur um það deilt að það mun setja pressu á ökumenn um að haga sér innan þess ramma sem samþykktur hefur verið. Þeir munu jafnframt velta því fyrir sér hvort tryggingafélagið hafi tekið eftir því þegar þeir fara út fyrir rammann. Hið sama á við um alla þá sem kaupa þjónustu af fyrirtæki þar sem fyrir fram samþykkt hegðun er hluti af kaupi og kjörum.

Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.