Í dag er alþjóðlegur persónuverndardagur. Í persónuvernd felst að farið sé með upplýsingar einstaklinga í samræmi við rétt þeirra til friðhelgi einkalífs. Frá því heimsfaraldur skall á fyrir um tveimur árum hefur þrengt verulega að þeim rétti. Þannig hefur til dæmis þótt eðlilegt að yfirvöld sæki upplýsingar frá kortafyrirtækjum til að finna út staðsetningu einstaklinga, veitingastaðir skrái komu gesta, sýna bólusetningarvottorð þegar þú ferð erlendis, sýna vottorð um að þú megir sækja viðburð, sækja ekki skóla nema niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir, upplýsa um hverjum þú varst með ef þú smitast og tilkynna náungann ef þig grunar að hann sé að fremja sóttvarnabrot.
Á Íslandi starfar stofnunin Persónuvernd sem hefur eftirlit með að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarréttindi og innan þess ramma sem lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga kveða á um. Í heimsfaraldrinum hafa áhrifamenn í samfélaginu beint spjótum sínum að stofnuninni og hún meðal annars verið sökuð um að standa í vegi fyrir mikilvægum aðgerðum í þágu samfélagsins. Fólk hefur einnig lagt sitt af mörkum í athugasemdakerfum við að úthúða stofnuninni, enda eflaust tilfinning þeirra að þarna sé óvinur á ferð í baráttunni við veiruna.
Árásir á Persónuvernd undanfarið koma alls ekki á óvart, enda tilhneiging margra til að ganga á mannréttindi og víkja hindrunum úr vegi þegar samfélagið stendur frammi fyrir erfiðleikum. Mikilvægt er þó að láta ekki blekkjast af áróðri og huga að þeim afleiðingum sem óheft söfnun upplýsinga um einstaklinga getur haft í för með sér. Á tímum þar sem nær útilokað er að komast í gegnum daginn án eftirtektar er staðreynd að Persónuvernd hefur aldrei gegnt mikilvægara hlutverki.
Karl Hrannar birti greinina einnig á Vísi, sjá hér.